Bergþór H. Þórðarson sem sett hefur af stað undirskriftarsöfnun gegn rafrettufrumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra segir að hóflegt markmið hafi verið að ná þúsund undirskriftum áðurn en þriðja umræða frumvarpsins færi fram. Það markmið hafi þó þegar næstum því náðst.

Frumvarpið setur meðal annars skilyrði um stærð og gerð rafrettna sem og áfyllinga, en meðal annars eru allar áfyllingar sem ekki innihalda tópak, þar með talið vítamín, koffín, tárín eða önnur örvandi efni bönnuð, sem og efni sem lita reykinn eða örva upptöku nikótíns.

„Þrátt fyrir að hafa verið sett seint af stað og hafa nánast eingöngu verið kynnt á samfélagsmiðlum hafa safnast tæplega níu hundruð undirskriftir á tæpum sólarhring,“. segir Bergþór.

„Þetta er til viðbótar mörgum póstum á samfélagsmiðlum og því tölvupóstaflóði sem þingmenn fengu og kvörtuðu undan frá andstæðingum frumvarpsins. Þessi miklu viðbrögð eru skýrt merki um hversu mikil andstaða er við að þetta frumvarp, í núverandi mynd, verði að lögum.“

Bergþór segir það klárt mál að setja þurfi laga- og regluramma utan um þessar vörur en að stíga þurfi ofurvarlega til jarðar. „Löggjöfin þarf að tryggja að aðgengi að rafrettum og tengdum vörum skerðist ekki óhóflega og að verð þeirra rjúki ekki upp úr öllu valdi,“ segir Bergþór en hvort tveggja hefur verið talið líkleg afleiðing lagasetningarinnar.

„Ef þetta frumvarp verður að lögum mun það leiða til þess að reykingar og önnur tóbaksnotkun mun aukast að nýju ásamt því að svartamarkaðsbrask með heimatilbúna vökva þar sem engin gæðastýring er við hendi mun taka á flug.

Við köllum eftir að þessu máli verði frestað til næsta þings þar sem það verður unnið upp á nýtt og nú í samráði við okkur notendurnar, fólkið sem ber mesta hagsmuni af því að vel sé staðið að verki.“

Hægt er að skrifa undir undirskriftarsöfnunina hér .