Skráð atvinnuleysi í apríl 2009 var 9,1% og jókst úr 8,9% í mars, eða um 1,8%.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en að meðaltali voru 14.814 manns atvinnulausir í apríl eða 268 fleiri að jafnaði en í mars. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.717 manns að jafnaði.

Á vef stofnunarinnar kemur fram að atvinnuleysi jókst um tæp 4% á höfuðborgarsvæðinu frá marsmánuði, en hefur dregist saman um rúm 2% á landsbyggðinni.

Mest hefur dregið úr atvinnuleysi á Norðurlandi eystra þar sem atvinnuleysið minnkaði úr 8,8% í mars í 8,3% í apríl. Einnig hefur dregið úr atvinnuleysi á Austurlandi (úr 5,5% í 5,2%) og á Suðurlandi (úr 7,4% í 7,2%). Annars staðar hefur atvinnuleysið staðið í stað eða aukist lítið eitt.

Sjá nánar vef Vinnumálastofnunar.