Tap af rekstri RARIK á fyrstu sex mánuðum ársins nam 91 milljón króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 1.532 milljónir króna, eða um 31% af veltu tímabilsins. Á sama tíma í fyrra nam EBITDA 1.356 milljónir eða 29% af veltu. Félagið birti árshlutareikning í dag.

Hreint veltufé dróst saman frá sama tímabili í fyrra og nam nú 1.531 milljón, en var 1.571 milljón í fyrra. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 981 milljón króna á tímabilinu en voru á sama tímabili árið áður jákvæðir um 248 milljónir króna. Þessi breyting stafar fyrst og fremst af veikingu krónunnar og verðbólgu sem var meiri en gert var ráð fyrir í áætlunum, segir í tilkynningu frá félaginu. Áhrif hlutdeildarfélags á rekstur voru neikvæð um 30 milljónir króna.

Heildareignir RARIK 30. júní 2011 voru 36.604 milljónir króna og heildarskuldir 18.381 milljónir. Eigið fé félagsins í lok tímabilsins var 18.223 milljónir og eiginfjárhlutfallið 49,8%.

Í tilkynningu frá félaginu segir að horfur á rekstri á árinu 2011 séu góðar, að undanskildum fjármagnsliðum. „Gert er ráð fyrir að afkoma ársins fyrir fjármagnsliði verði í samræmi við áætlanir, en heildarafkoma ársins ræðst hins vegar að verulegu leyti af þróun á gengi krónunnar og almennu ástandi efnahagsmála. Í ljósi þess að verðbólguþróun á fyrri hluta ársins og verðbólguspá næstu mánaða er hærri en gert var ráð fyrir í áætlunum, má búast við að tap verði á fyrirtækinu á árinu.“