9,2% íslenska vinnumarkaðarins voru skráðir annaðhvort atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli í mars. Þar af falla 5,7% undir hefðbundna skilgreiningu atvinnuleysis, en 3,5% eru í skertu starfshlutfalli.

Um 5.200 fyrirtæki nýttu hlutabótaúrræði stjórnvalda fyrir 24.400 starfsmenn í mánuðinum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn í mars.

„Staða á vinnumarkaði gjörbreyttist í marsmánuði sökum þeirra takmarkana sem farið var að setja á öll samskipti fólks samhliða útbreiðslu covid-veiru faraldursins frá lokum febrúar og þarf ekki að tíunda hér frekar,“ segir í upphafsorðum skýrslunnar.

Í henni er gert ráð fyrir að alls muni um 6.500 fyritæki nýta sér úrræðið á því tímabili sem það verður í gildi, fyrir um 35 þúsund launþega.

Almennt atvinnuleysi hafði farið vaxandi strax framan af marsmánuði, og búist er við að mikill vöxtur verði nú í apríl þegar umsóknir um minnkað starfshlutfall „koma fram af fullum þunga“, til viðbótar við „allmikla aukningu almennra umsókna“, að því er segir í skýrslunni.

Alls er því spáð að atvinnuleysi verði 16,9% í apríl með hlutabótaþegum, en taki að lækka aftur í maí „sökum aukinna umsvifa á ákveðnu msviðum efnahagslífsins“.

Þá er ekki gert ráð fyrir mörgum afskráningum af atvinnuleysisskrá á næstunni vegna erfiðs ástands á vinnumarkaði.