Samningar sem að fjárfestar nota til þess að veðja á hækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum gefa til kynna að 92 prósent líkur eru á því að stýrivextir hækki vestanhafs í næstu ákvörðun Seðlabankans. Á föstudaginn síðasta voru einungis 82 prósent líkur á hækkun. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Þessi mikla breyting kemur í kjölfar þess að Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, eins og frægt er. Fjárfestar telja því líklegt að Trump komi til með að kynna til leiks stefnu sem mun hækka hagvöxt og verðbólgu í landinu.

Næsta stýrivaxtaákvörðun í Bandaríkjunum verður tekin 13. desember næstkomandi. Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað að hækka stýrivexti í desember í fyrra.