Um 93% þeirra 60 evrópsku fjármálafyrirtækja sem töpuðu fjármagni vegna fjármálahrunsins á Íslandi íhuga nú málssóknir á hendur stjórnvöldum.

Þetta kemur fram í könnun Norton Rose sem greint hefur verið frá fyrr í dag en þar kom meðal annars fram að svipaður fjöldi þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni telja ólíklegt að þau muni fjárfesta hér á landi í bráð.

Breska blaðið Finanacial Times greindi frá könnuninni í morgun en annað breskt blað, Telegraph, fjallar sérstaklega um þann hluta þar sem fram kemur að flest þeirra 60 fjármálafyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni íhugi málssóknir á hendur Íslendingum.

Telegraph segir að um 98% þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni telji að íslensk stjórnvöld hafi komið fram með ósanngörnum hætti við kröfuhafa við fall stóru bankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis í október sl.

Telegraph segir að margir kröfuhafar hafi verið óánægðir með það að íslensk stjórnvöld hafi nýtt eignir bankanna erlendis til að fjármagna innanlandshluta þeirra eins og það er orðað á vef blaðsins í kvöld.

Fram kemur að með skuldabréfaútgáfu hafi íslensk stjórnvöld hafi boðað samkomulag við kröfuhafa Kaupþings og Glitnis til að mæta tapi þeirra þegar bankarnir voru teknir yfir. Hins vegar sýnir fyrrnefnd könnun að kröfuhafar séu enn ekki sáttir við gerðir íslenskra stjórnvalda og þann samning sem þeim hefur verið boðinn.

Þá telja um 75% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að íslensk stjórnvöld hafi mögulega brotið alþjóðalög við efnahagshrunið sem síðan hefur leitt til stjórnarskipta og rannsóknar á starfsemi bankanna.

Þá kemur loks fram að 90% þátttakenda sjá engan bata hér á landi næstu 2-3 árin og að Ísland sé ekki tilbúið að ganga í Evrópusambandið.