Dr. Haldor Topsøe hefur eignast fyrirtækið Haldor Topsøe A/S að fullu, en það vinnur við gerð efnahvata fyrir margvíslegan iðnað. Höfuðstöðvar félagsins eru í Kaupmannahöfn, en félagið er með starfsemi víða um heim og opnaði meðal annars dótturfyrirtæki á Indlandi á síðasta ári. Kaupverðið er 340 milljónir evra eða tæpir 30 milljarðar króna. FIH og Kaupþing banki sáu um fjármögnun kaupanna, en Morgan Stanley aðstoðaði kaupanda.

Haldor Topsøe stofnaði fyrirtækið sem við hann er kennt árið 1940 og hann er enn stjórnarformaður félagsins, þó hann sé nú orðinn 94 ára. Hann hefur nú eignast félagið að fullu á ný eftir 35 ára samstarf við þá hluthafa sem nú selja. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi sá hann sjálfur um allar samningaviðræður vegna kaupanna. Félaginu var breytt í almenningshlutafélag árið 1972 og kom þá félagið Snamprogetti, sem tilheyrir ENI Group, inn í hluthafahópinn.