Múhammed bin Rashid al Maktoum, varaforseti og forsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hefur verið dæmdur á Bretlandi til að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni, Hayu Bint al-Hussein prinsessu, 544 milljónir punda um 94 milljarða króna í kjölfar skilnaðar þeirra. Fjárhæðin er sú hæsta sem dæmd hefur verið í skilnaðarmáli á Bretlandi að því The Times greinir frá.

Haya er systir Abdúlla II Jórdaníukonungs og var yngst af sex eiginkonum Múhammeds.

Í dómnum kemur fram að öryggi Hayu hafi verið ógnað af fyrrverandi eiginmanni sínum frá því að hún flúði land ásamt tveimur börnum sínum eftir að upp komst um ástarsamband Hayu með öryggisverði sínum. Í dómnum kemur segir einnig að öryggisvörðurinn, sem er giftur fyrrverandi breskur hermaður, og aðrir starfsmenn hafi kúgað fé út úr Hayu til að halda ástarsambandinu þeirra leyndu og fengið greiddar 6,7 milljónir punda, um 1,2 milljarða króna.

Múhammed hafði áður verið dæmdur af breskum dómstólum fyrir að nýta ísraelskan njósnabúnað til að brjótast inn í síma Hayu og hafa rænt tveimur dætrum sínum sem vildu flýja frá honum. Þó vaknaði grunur í sumar um að staða annarrar þeirra, Latífu, væri betri en óttast var eftir að mynd birtist af henni við eldgosið við Fagradalsfjall líkt og RÚV greindi frá.

Öryggiskostnaður sem Haya fær greiddan eftir skilnaðinn nemur 11 milljónum punda á ári, hátt í tveimur milljörðum króna.

Meðal þess sem Haya fær greitt til viðbótar er um 10 milljónir punda, um 1,7 milljarðar króna á hverjum áratug í viðhald á heimili hennar í London og 3 milljónir punda, um hálfur milljarður króna í viðhald á sveitasetri hennar.

Þá fær Haya einnig 5,1 milljón punda, um 890 milljónir króna til að greiða fyrir fjölskyldufrí erlendis árlega en þar af er hátt í helmingur öryggiskostnaður og ein milljón punda, um 170 milljónir króna, leiga á einkaþotum.