Heildarviðskipti með hlutabréf námu 1.696 milljónum í apríl eða 94  milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í mars 18.799  milljónir eða 817 milljónir á dag, samkvæmt mánaðarlegu yfirlitii frá Kauphöll Íslands. Mest voru viðskipti með bréf Icelandair 828 milljónir,  bréf Marels 625 milljónir og bréf BankNordik 149 milljónir.  Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði lítillega á milli mánaða (0,17%) og stendur í 998 stigum.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 167 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 9,3 milljarða veltu á dag samanborið við  8,8 milljarða veltu á dag í marsmánuði. Mest voru viðskipti með ríkisbréf 110 milljarðar en viðskipti með íbúðarbréf námu 54 milljörðum.

Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland segir í tilkynningu um viðskiptin í apríl að þau hafi verið með ágætu móti fyrri hluta mánaðar en óvenjudauf um og eftir páska. „Horfur eru á að fyrirtækjum fari fjölgandi í Kauphöllinni á næstu mánuðum. Með vexti hlutabréfamarkaðar skapast ný tækifæri til fjármögnunar grunnatvinnuveganna á markaði sem getur gefið hagvexti byr undir báða vængi. Jafnframt er það áleitin spurning hvort ekki geti skapast víðtæk sátt um sjávarútveginn með skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á markað og boði til almennings um kaup á hlutafé á sanngjörnum kjörum.“

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var MP banki með mestu hlutdeildina í apríl, 30,6% (5,9% á árinu),  Landsbankinn með 24,0% (68,2% á árinu) og Saga fjárfestingarbanki með 11,4% (4,8% á árinu). MP Banki var einnig umsvifamestur á skuldabréfamarkaði með 26,7% hlutdeild (27,1% á árinu), Íslandsbanki með 24,8% (23,1% á árinu) og Arion Banki með 15,9% (14,0% á árinu).