„Í fyrsta sinn frá árinu 2008 stendur fasteignakaupendum til boða 95% fjármögnun við kaup á íbúð," segir í tilkynningu frá íbúðaseljendum í Kópavogi sem eru tilbúnir að lána kaupendum fyrir þremur fjórðu hlutum útborunarinnar.

„Fyrirkomulag fjármögnunarinnar er með þeim hætti að seljandi íbúðanna veitir kaupendum lán sem nemur 15% af kaupverði og brúar þar með bilið frá 80% útlánaþaki flestra fjármálafyrirtækja.

Allt að 47 fermetra íbúðir

Af þessu leiðir að útborgun við kaupin nemur einungis 5% af söluverði íbúðanna. Íbúðirnar sem um ræðir eru 29 til 47 fermetrar að stærð og söluverð þeirra er á bilinu 15,9 til 23,9 milljónir króna.

Útborgun við kaup á íbúð í lægsta verðflokknum getur því farið allt niður í 795 þúsund krónur. Íbúðirnar eru við Kársnesbraut 106 í Kópavogi, á þeim hluta Kársnessins sem er í mikilli uppbyggingu og nálægt fyrirhugaðri göngubrú til Reykjavíkur.

Greiðslubyrði 91 þúsund krónur á mánuði

Seljendalánið er til allt að sjö ára og ber 9,8% óverðtryggða vexti. Miðað við fulla lengd lánstíma og algengt vaxtastig íbúðalána hjá viðskiptabönkunum yrði heildargreiðslubyrði vegna kaupa íbúðar í ódýrusta flokknum í kringum 91 þúsund krónur á mánuði.

Á sömu forsendum yrði mánaðarleg greiðslubyrði um 140 þúsund krónur við kaup á íbúð í stærsta flokknum." Fulltrúi seljenda, Sverir Einar Eiríksson segir mikið talað um hversu erfitt og dýrt er að komast á fasteignamarkaðinn.

„Hér er kjörið tækifæri fyrir fólk að ná fótfestu með lágri útborgun.  Íbúðirnar eru litlar, kaupverðið þar af leiðandi lágt og nánast full fjármögnun í boði.  Þetta getur hentað mörgum“, segir Sverrir Einar Eiríksson, fulltrúi seljanda.