Samkeppniseftirlitið hefur á þessu ári sektað níu fyrirtæki um samtals 950 milljónir króna vegna fimm aðskildra mála. Þetta er umtalsvert meira en oft áður. Í samanburði við fjárveitingar ríkisins til eftirlitsins er upphæðin margföld á við hana.

Framlög til eftirlitsins nema 287 milljónum króna á þessu ári. Þannig má segja að íslenska ríkið fái það fé margfalt til baka sem það setti í samkeppniseftirlitið, a.m.k. á þessu ári.

Málin sem samkeppniseftirlitið tekur til umfjöllunar eru mörg hver umdeild. Skemmst er að minnast samráðs olíufélaganna en margir angar þess eru enn fyrir dómstólum. Þar á meðal mál olíufélaganna gegn samkeppniseftirlitinu og ríkinu.