*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 12. september 2018 12:50

96% íslendinga nota samfélagsmiðla daglega

Íslendingar eru einnig duglegri að versla á netinu en nú versla 80% Íslendinga á netinu í hverjum mánuði.

Ritstjórn
David Mattin, sérfræðingur hjá Trendwatching.
Aðsend mynd

„Betri skilningur á væntingum neytenda getur skapað fyrirtækjum samkeppnisforskot. Fyrirtæki þurfa að huga að því hvernig viðhorf og þarfir neytenda þróast til skemmri og lengri tíma litið.“

Þetta kom fram í erindi David Mattin, sérfræðings hjá Trendwatching, á ráðstefnunni Innsýn í framtíðina sem Gallup stóð fyrir í Hörpu í gær. David kynnti helstu meginstrauma fyrir árið 2019 en fyrirtækið Trendwathcing gefur árlega út framtíðarspár í tengslum við væntingar og viðhorf neytenda. Aðrir framsögumenn á ráðstefnunni voru sérfræðingar Gallup í fjölmiðla-, markaðs-, og mannauðsrannsóknum sem fóru yfir helstu þróun á viðhorfi Íslendinga síðasta áratug. Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur hjá Kviku stýrði fundi.

Í mælingum Gallup á hegðun og viðhorfi Íslendinga síðasta áratuginn kemur fram að tryggð starfsfólks hefur ekki verið jafn lítil síðan árið 2002 en ytri þættir hafa áhrif á tryggð. Einnig kemur fram að vinnuálag mælist marktækt meira en árið 2008 þrátt fyrir að vinnutíminn sé ekki að aukast, en tæknibreytingar og snjallsímavæðing eru atriði sem gætu haft áhrif þar á. 46% Íslendinga fylgjast oft með vinnupóstinum utan vinnutíma og telja 47% Íslendinga að aukið aðgengi að vinnupóstinum auki vinnuálag í starfi.

Helgun starfsfólks hefur aukist

Helgun starfsfólks hefur aukist undanfarinn áratug á Íslandi, ef frá eru talin árin í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Skýrist það af breytingum á áherslu í stjórnun og vaxandi áherslu á mannauðsmál. Eitt af því sem tekið hefur miklum breytingum á síðastliðnum áratug er aukin áhersla á endurgjöf til starfsfólks. Helgað starfsfólks er tilfinningalega tengt vinnustaðnum, virkt og áhugasamt í starfi sínu og leggur sig fram á hverjum degi.

Notkun Íslendinga á samfélagsmiðlum er að aukast hratt en 96% íslendinga nota samfélagsmiðla daglega. Einnig eru Íslendingar duglegri að versla á netinu en nú versla 80% Íslendinga á netinu í hverjum mánuði miðað við árið 2015 þegar 70% versluðu á netinu í hverjum mánuði.

Haukur Ingi Guðnason og Marta Gall Jörgensen frá mannauðsrannsóknum og ráðgjöf Gallup fjölluðu um ákvarðanatöku. Í máli þeirra kom fram að oft er gengið út frá því að fólk byggi ákvarðanir sínar að mestu á rökum og skynsemi, en að í raun spili tilfinningar, innsæi og órökrétt hugsun stórt hlutverk í ákvarðanatöku. Til að mynda geta hugsanaskekkjur haft slæm áhrif á dómgreind okkar og eru okkur svo tamar að við tökum sjaldnast eftir þeim. Þau töluðu um að fólk ofmeti t.d. oft eigin getu samanborið við aðra, taki frekar eftir upplýsingum sem staðfesti skoðanir þess og taki oft ákvarðanir í samræmi við það sem hópurinn vill, fremur en að fylgja eigin sannfæringu.

Ólafur Elínarson sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup fjallaði um vissar grunnbreytingar á viðhorfum Íslendinga. „Gallup mælir árlega viðhorf Íslendinga og hafa orðið áhugaverðar breytingar á viðhorfum. Það má segja að við höfum orðið mun víðsýnni á síðasta áratug. Einnig er áhugavert að sjá breytta kauphegðun okkar á netinu, þar sem kaup á vörum af ýmsum toga er að aukast hratt.“

Í erindi David Mattin kom einnig fram að nýsköpunarfyrirtæki og ný tækni skapa nýja hegðun hjá neytendum en frumþarfirnar séu alltaf þær sömu. „Stjórnendur fyrirtækja þurfa að horfa út fyrir sitt fyrirtæki til að vera meðvitaðir um þróun og breytingar á markaði. Neytendur eru drifkraftur þessara breytinga og því er mikilvægt að vita hvað neytendur vilja næst því væntingar og viðhorf þeirra eru síbreytileg.“

David fjallaði um nokkra meginstrauma fyrir árið 2019 sem felast meðal annars í breyttri notkun neytenda á samfélagsmiðlum og aukinni þörf neytenda fyrir að upplifa hluti á einstakan hátt. Ennfremur nefndi hann að viðhorf neytenda til umhverfismála og samfélagsábyrgðar hefðu aukin áhrif á kauphegðun einstaklinga. „Alþjóðleg fyrirtæki bregðast við þessum viðhorfum og væntingum neytenda með því að þróa vörumerki sín í átt að ábyrgari og gagnsærri starfsemi, þar sem fyrirtæki miðla fríum uppfinningum til markaðarins sem stuðlar að aukinni umhverfisvernd og hefur á sama tíma jákvæð áhrif á ímynd þeirra.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is