96% hluthafa sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II kusu að fá hluti sína greidda út í reiðufé í stað þess að gerast hluthafar í Alvotech fyrir skráningu Alvotech á markað í júní.

Því runnu aðeins tæplega 10 milljónir dollara af hlutafé úr SPAC-félaginu í sameinað félag, um 1,4 milljarðar króna, í stað 250 milljóna dollara, um 34,5 milljarða króna sem hefði gerst ef enginn hluthafi hefði óskað eftir innlausnar.

Nýtt fé í stað innlausna

Alvotech tilkynnti í apríl að gengið hefði verið frá skuldbindandi samkomulagi við tvo bandaríska vogunarsjóði, Yorkville og Sculptor, um að mæta mögulegum innlausnum hluthafa SPAC, félags Oaktree, í ljósi hárra innlausnar hjá sambærilegum félögum. Samkvæmt uppfærðri skráningarlýsingu Alvotech frá því í lok júlí á félagið enn í viðræðum við félögin um endanlega skilmála og að uppfylla alla fyrirvara samkomulagsins.

Samkomulagið við Yorkville gengur út að það bjóðist til að kaupa hlutafé í Alvotech fyrir allt að 150 milljónir dollara sem Alvotech geti dregið á næstu þrjú árin eftir þörfum. Því til viðbótar muni vogunarsjóðurinn Sculptor, sem fyrir er meðal stærstu lánveitenda Alvotech, lána félaginu 75 til 125 milljónir dollara, vegna innlausnar hluthafa SPAC félagsins.

Til viðbótar við samrunann við félag Oaktree safnaði Alvotech 175 milljónum dollara í hlutafjárútboði en um helmingur þess kom frá íslenskum fjárfestum í útboði sem leitt var af Landsbankanum, Arion banka og Arctica Finance. Þá hafa aðaleigendur Alvotech, systurfélagið Alvogen og fjárfestingafélagið Aztiq, sem leitt er af Róberti Wessman, samþykkt að breyta um 50 milljónum dollara hluthafaláni í nýtt hlutafé í félaginu.

Markmiðið með hlutafjársöfnun Alvotech fyrir skráninguna var samkvæmt fjárfestakynningu að búa til flugbraut þar til sjóðsstreymi félagsins yrði jákvætt þegar lyfjasala félagsins fer á fulla ferð.

Hlutabréfaverð Alvotech féll lægst niður í 5,5 dollara í kjölfar skráningar félagsins á markað eða 45% undir 10 dollara útboðsgengið. Gengið hefur hins vegar rétt úr kútnum á ný síðustu daga og stendur nú í 9,02 dollurum á hlut eða tæplega 10% undir útboðsgenginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem verður dreift á föstudagsmorgunn en rafræn útgáfa verður aðgengileg á miðnætti í kvörl. Á meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Viðtal við Heiðar Guðjónsson, fráfrandi forstjóra Sýnar.
  • Úttekt á hrávörumörkuðum og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf
  • Fjallað er um yfirtöku Fjárfestingafélags Andra Gunnarssonar og Orra Hlöðverssonar á Frumherja í lok síðasta árs.
  • Rætt er við Gísla Guðjónsson, nýjan ráðgjafa hjá Júní.
  • Fjallað um takmarkaðan áhuga fjárfesta á síðustu tveimur skuldabréfaútboðum borgarinnar.
  • Rafhlaupahjól af dýrari gerðinni hafa rokið út hjá sérversluninni Þrumunni síðustu sumur.
  • Fjölmiðlarýnir bara spyr?
  • Huginn og muninn er á sínum stað sem og Týr sem skrifar um litlu gulu hænuna og eldgosið.
  • Óðinn birtir gögnin sem Magnús Karl læknir bað um í Sprengisandi á dögunum.