*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 29. júní 2020 17:08

96 milljóna tap á fyrsta ársfjórðungi

EBITDA á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins hjá Högum lækkaði um 737 milljónir frá fyrra ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tap Haga á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2020, þ.e. frá 1. mars til 31. maí, nam 96 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA), félagsins nam 1,3 milljörðum og dróst saman um 737 milljónir eða um 36% frá sama tímabili í fyrra þegar hann var tæplega tveir milljarðar. 

Sala félagsins nam 28,2 milljörðum króna á fjórðungnum samanborið við 28,6 milljarða árið áður sem er um 1,2% lækkun. Kostnaðarverð seldra vara jókst um 254 milljónir milli ára og nam 22,4 milljörðum. Framlegð Haga lækkaði því um 9,4% frá fyrra ári og nam 5,8 milljörðum. 

Fjárhagsleg áhrif starfsloka Finns Árnasonar, fráfarandi forstjóra, nema 86,4 milljónum króna og koma fram á fyrsta ársfjórðungi. Hagar tilkynntu þann 12. júní síðastliðinn að samkomulag hafi náðst við Guðmundu Marteinsson um áframhaldandi starf hans sem framkvæmdastjóri Bónus.

Eignir samstæðunnar jukust um 1,3 milljarða króna á tímabilinu og námu 64 milljörðum í lok maí. Það má rekja til hækkunar á handbæru fé um 1,2 milljarða á tímabilinu og nam það 3,5 milljörðum í lok fjórðungsins. Eigið fé í lok maí var 24 milljarðar, skuldir um 40 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 37,6%. 

Tekjuvöxtur var í dagvöruhluta samstæðunnar en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Í árshlutareikningi félagsins segir að gengisfall íslensku krónunnar og sú lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átti sér stað á tímabilinu hafði áhrif á framlegð og þá voru verðhækkanir birgja töluverðar. Stjórn Haga segir efnahags- og lausafjárstöðu Haga vera sterka og félagið í stakk búið til að takast á við aðstæður sem þessa. 

Félagið mun enn sem komið er ekki gefa út afkomuspá fyrir rekstrarárið 2020/21 þar sem enn ríkir óvissu um áhrif faraldursins á nýju rekstrarári. Þrátt fyrir óvissu er það mat stjórnenda að áhrif faraldursins hafi komið að mestu leyti fram á fyrsta ársfjórðungi. 

Stikkorð: Hagar Finnur Árnason