Gistinætur á hótelum í apríl drógust saman um 97% samanborið við sama mánuð í fyrra. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Hagstofunni.

Rétt er að geta þess að um bráðabirgðatölur er að ræða en samkvæmt þeim voru gistinæturnar nú 7.900 samanborið við tæplega 373 þúsund í apríl í fyrra. Nýting á rúmum var 1,8%, vikmörk 0,6 prósentustig í hvora átt, en í fyrra nam hún 41,6%. Af 167 hótelum sem skráð eru hjá Hagstofunni hafa 69 tilkynnt um lokun.

Vanalega gefur Hagstofan út fjölda gistinátta ferðamanna um 30 dögum eftir að mánuði lýkur. Nú er það hins vegar gert um viku eftir mánaðarlok og er um svokallaða tilraunatölfræði að ræða. Breytingar í greininni, það er hrun hennar síðustu vikur sökum veirufaraldursins, ýti undir örari tölfræði en rétt sé þó að gera fyrirvara við tölurnar.

„Um 20% hótela skila gögnum fyrstu dagana eftir lok hvers mánaðar. Þar sem ekki er um að ræða val af handahófi er þeim skipt upp eftir landsvæðum og gögnin vigtuð eftir þeim. Tölur um rúmanýtingu og fjölda gistinátta í þessum undirhópi hótela sem skila að jafnaði snemma er hægt að nota til þess að áætla lokaniðurstöður um rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum með vikmörkum,“ segir í frétt Hagstofunnar.