Félag atvinnurekenda gagnrýnir þróun fasteignaskatta á fyrirtæki og breytta aðferð við útreikninga Þjóðskrár Íslands á fasteignamati atvinnuhúsnæðis. Breytingin tók gildi um mitt ár 2014. Hafði þessi nýja aðferðafræði, svokallað tekjumat , mikil áhrif og olli því að fasteignamatið hækkaði almennt um 14%, umfram verðlagshækkanir, milli áranna 2014 og 2015.

Í erindi sem FA hefur sent fjármálaráðherra er tekið raunverulegt dæmi af fyrirtæki, sem á 80 fermetra fasteign í Kringlunni.

„Fasteignamat eignarinnar var árið 2014 40,5 milljónir króna og voru greiddar 667.590 krónur í fasteignagjöld,“ segir í erindinu. „Árið 2017 var fasteignamatið komið í 80,1 milljón króna og fasteignagjöldin í 1.321.650 krónur, en það er hækkun sem nemur 98%.“Telur FA að samkvæmt lögum sé Þjóðskrá eingöngu heimilt að nota tekjumatsaðferðina ef gangverð fasteignar sé ekki þekkt.

„Á þessu er algjör misbrestur og full ástæða til að skýra lagaákvæði til að taka af allan vafa um aðferðir við útreikning fasteignagjalda,“ segir í erindinu. „Að mati FA standast útreikningar Þjóðskrár ekki þá skýrleikakröfu sem stjórnarskráin gerir til skatta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .