Yfir 98% hluthafa í hollenska iðnfyrirtækinu Stork NV hafa samþykkt yfirtökutilboð London Acquisition N.V. Tilboðið er upp á 1,5 milljarða evra. Tilboðið rann út á mánudaginn. Að London Acquisition N.V.  standa breski fjárfestingasjóðurinn Candover, Eyrir Invest og Landsbankinn. Það mun skýrast í dag hvort tilboðið er skilyrðislaust.

4. febrúar síðastliðin samþykktu nærri allir hluthafar Stork NV sölu Stork Food Systems til Marel. Samþykkt var ekki bindandi þar sem kaup Marel á Stork Food Systems voru háð þremur fyrirvörum eins og greint var frá þegar samkomulagið var kynnt í lok nóvember.

Aðeins er eftir að fá samþykki samkeppnisyfirvalda og álit starfsmannaráðs Stork. Þangað til verða Marel og Stork Food Systems hvort um sig rekin sjálfstætt.