Tæplega 10 milljarða velta var á viðskiptum dagsins í Kauphöllinni í dag. Ríflega tveggja milljarða velta var á viðskiptum með hlutabréf á Aðalmarkaði en 7,8 milljarða velta var á viðskiptum með skuldabréf.

Mest hækkaði gengi bréfa TM í viðskiptum dagsins eða um 3,37% í 260 milljóna króna veltu. Þar á eftir kom fasteignafélagið Reitir með 3,25% hækkun í 402 milljóna króna veltu. TM birti ársreikning sinn í dag en þar kom fram að hagnaður ársins nam 2,8 milljörðum króna, en hann var tæpur 2,1 milljarður árið áður. Reitir luku skuldabréfaútboði í vikunni en alls bárust tilboð að nafnvirði 3.350 milljónir króna. Samþykkt voru tilboð fyrir 910 og 870 milljónir króna.

Mesta veltan var með bréf Icelandair en hún nam 773 milljónum króna en gengi bréfana lækkaði um 0,85%. Mest lækkaði gengi bréfa Marel eða um 0,88% í tæplega 100 milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,05% og stóð lokagildi hennar í 1.792,43.