Internet á Íslandi hf., ISNIC, sem heldur utan um lénið .is, hagnaðist um 98 milljónir króna á síðasta ári miðað við 89 milljóna króna hagnað árið 2016. Það er aukning um 10,1%, meðan tekjurnar jukust um tæplega 3,8%. Tekjur af lénskráningu árið 2017 námu 275 milljónum króna, sem er 10 milljónum meira en árið 2016.

Rekstrargjöld námu 147 milljónum og lækkuðu um milljón milli ára. Félagið greiddi 85 milljónir í arð á síðasta ári og 95 milljónir árið 2016. Stöðugildum fækkaði úr 9 í 7 milli ára.

Framkvæmdastjórinn á tæpan þriðjung

Eignir félagsins námu 379 milljónum í árslok 2017, þar af nam handbært fé 193 milljónum króna. Eigið fé nam 190 milljónum og skuldir 189 milljónum króna.

Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri félagsins, er stærsti hluthafinn og á 29,5% hlut. Þá á Íslandspóstur 18,7% hlut en að öðru leyti er félagið að mestu í eigu einkaaðila.