Umskipti urðu í hótelrekstri hér á landi í marsmánuði vegna heimsfaraldursins. Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að nýtingin hjá hótelum í Reykjavík hafi farið úr að meðaltali 72,3% fyrstu vikuna í mars niður í 2,1% síðustu vikuna í mars. Ástæðuna fyrir þessum miklu umskiptum má rekja til viðbragða við Covid -19 en mörg af helstu viðskiptalöndum Íslands hafa sett upp víðtækar ferðatakmarkanir bæði innanlands og til og frá löndunum vegna faraldursins.

„Herbergjanýtingin síðustu vikuna í mars gefur smjörþefinn af því sem koma skal á allra næstu vikum, a.m.k. meðan ferðatakmarkanir eru jafn strangar og í dag," segir í Hagsjánni. „Flest bendir til þess að ekki verði slakað á ferðatakmörkunum í helstu viðskiptalöndum fyrr en í fyrsta lagi í maí, hugsanlega síðar. Jafnvel þó ferðatakmörkunum verði aflétt ríkir töluverð óvissa um hvenær fólk fer að ferðast til annarra landa á ný. Þessi þróun hefur í raun kippt fótunum undan rekstri hótela til skemmri tíma litið en tekjur hótela í Reykjavík síðustu vikuna í liðnum marsmánuði voru einungis 2% af tekjum síðustu vikuna í mars á síðasta ári."