Af þeim 65% hluthafa sem mættu á sérstakan hluthafafund Euronext í gær, samþykktu 98,2% fyrirthugaðan samruna við kauphöllina í New York (NYSE), segir í frétt Dow Jones.

Sjö mánuðir eru síðan stjórn Euronext lýsti yfir stuðningi við tilboð NYSE, en síðan hafa mörg ljón verið á veginum, þar á meðal yfirtökuboð frá þýsku kauphöllinni Deutsche Börse og athugasemdir samkeppnisyfirvalda.

Mikill þrýstingur hefur verið á Euronext að leita frekar til Evrópu, þar sem íþyngjandi reglugerðir og lagaflækjur frá Bandaríkjunum muni bitna á stöðu fyrirtækisins.