Kvenréttindadagurinn verður haldinn hátíðlegur víða um land í dag. Fyrir 99 árum, eða þennan dag árið 1915, fengu konur sem voru 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Frá árinu 1885 höfðu konur barist fyrir þessum réttindum þó að fyrsta opinbera krafan um kosningarétt hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895.

Í tilefni dagsins verður boðið upp á dagkrá víða um land. Á Hallveigarstöðum í Reykjavík verður opinn fundur klukkan 17. Klukkan 19.30 verður vígður höggmyndagarður í Hljómskálagarðinum, þar sem sex verk eftir íslenskar konur munu standa. Klukkan 20 mun Auður Styrkársdóttir leiða göngu um kvennasöguslóðir í Reykjavík en gengið verður frá Hljómskálagarðinum.

Á Akureyri hefst kvennasögugangan við Ráðhústorg klukkan 16.20 og klukkan 18 er fólki boðið á kvikmyndasýningu í Sambíói þar sem sænska verðlaunamyndin Monika Z verður sýnd en hún fjallar um ævi djasssöngkonunnar Monicu Zetterlund, sem lést í eldsvoða á heimili sínu í Stokkhólmi fyrir átta árum.