*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 15. apríl 2020 10:50

99 farþegar um Leifsstöð um Páskana

Forstjóri Isavia telur að lausafé félagsins dugi í 5 mánuði án fjárfestinga, en það fær um 4 milljarða frá ríkinu til að sinna þeim.

Ritstjórn
Sveinbjörn Indriðason er forstjóri Isavia, sem rekur flugvelli landsins.

Frá Skírdegi til mánudags fóru ríflega 84 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í fyrra en á sömu dögum í ár náðu þeir ekki 100 að því er Morgunblaðið segir frá og tekur það saman sem 99% samdrátt. Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia, sem rekur flugvelli landsins, segir lausafjárstöðu félagsins nógu sterka til að standa undir þeim mikla fasta kostnaði sem félagið sé með í 5 mánuði.

Þegar á síðasta ári hafði farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkað um 26%, í 7,2 milljónir farþega, frá árinu 2018, en nú sé fullkomin óvissa um hvernig árið verður vegna heimsfaraldursins sem dreifst hefur út um heimsbyggðina.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá dróst farþgafjöldinn saman um 63% í mars, en í fyrra dróst afkoma félagsins saman um ríflega 70%, en hún nam 1,2 milljörðum eftir árið 2019.

„En ef við horfum á árið í heild þá má auðveldlega gera ráð fyrir því að farþegum muni fækka um meira en helming milli ára,“ segir Sveinbjörn, sem segir lausafjárstöðuna ekki duga ef horft er til frekari fjárfestinga.

„Það eru um fimm mánuðir ef við skrúf­um fyr­ir all­ar fjár­fest­ing­ar. Ef farþegum fjölg­ar hins veg­ar aft­ur með þeim hætti sem ég lýsti áðan, þ.e. hægt en að um­svif verði kom­in í gang með haust­inu, þá ætt­um við að geta kom­ist í gegn­um árið án þess að þurfa að sækja okk­ur aukna fjár­mögn­un.“

Hann segir félagið nú endurmeta fjárfestingaráætlanir sínar, auk þess sem það sé að undirbúa markaðssókn til að laða að farþega og flugfélög þegar glæðast fer yfir markaðnum á ný.

Íslenska ríkið hefur þegar ákveðið að leggja félaginu til fjóra milljarða króna í nýtt hlutafé, sem eiga að nýtast í innviðaverkefni sem skapi 50 til 125 störf í hverjum mánuði fram á mitt næsta ár, en helmingur fjármagnsins fara í verkefni er tengjast hönnun.

Félagið sagði upp 101 starfsmanni fyrir síðustu mánaðamót en hjá því störfuðu að meðaltali 1.360 manns í fyrra, en hann segir félagið mögulega þurfa að grípa til fleiri uppsagna. Auk þess er útlit er fyrir að færri en þeir 140 sumarstarfsmenn sem félagið ætlaði að kalla á vettvang í sumar verði ráðnir.