Afkoma Landsbankans árið 2018 var jákvæð um tæplega 19,3 milljarða króna á síðasta ári. Samþykkt var á aðalfundi bankans í gær að greiða rúmlega 9,9 milljarða króna í arð til eigenda en íslenska ríkið á nær allt hlutaféð.

Arðgreiðslan verður greidd út í tveimur hlutum. Fyrri greiðslan verður inn af hendi í næstu viku en sú síðari í byrjun október. Greiðslan nemur rúmum helmingi af hagnaði ársins og er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Undanfarin sjö ár hefur bankinn samtals greitt ríkinu 142 milljarða króna í arð.

Arðgreiðsla ársins í ár er rúmum fimm milljörðum lægri en vegna ársins 2017. Þá voru greiddir rúmir 15 milljarðar sem samsvaraði 78 prósentum af hagnaði ársins.

Arðsemi eigin fjár án bankaskatts er 9,8 prósent að teknu tilliti til hans nam hlutfallið rúmum átta prósentum. Er það sambærilegt og árið 2017. Eiginfjárhlutfallið stendur í 24,9 prósentum og hefur farið lækkandi frá árslokum 2015. Það er þó enn yfir markmiði bankans en það gerir ráð fyrir 23 prósent eiginfjárhlutfalli. Eigið fé bankans nam 239,6 milljörðum í árslok.

Útlán bankans á árinu jukust um tæpa 139 milljarða, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, og vanskilahlutfall lækkaði í tæpt prósent. Séu útlán til heimila skoðuð má sjá að stökk varð í óverðtryggðum íbúðalánum.

Laun og launatengd gjöld jukust um fjögur prósent á milli ára en á móti lækkuðu önnur rekstrargjöld um fimm prósent. Rekstrarkostnaður stendur því í stað milli ára.