Flugmálayfirvöld í Sádi-Arabíu hafa endurkallað lendingarleyfi katarska flugfélagsins Qatar Airways. Flugfélagið má þar af leiðandi hvorki lenda vélum sínum í landinu né fljúga í lofthelgi landsins.

Krefjast flugmálayfirvöld í Sádi-Arabíu þess að flugfélagið loki starfsstöðvum sínum í landinu á næstu tveimur sólarhringum auk þess sem dvalarleyfi starfsmanna flugfélagsins hafa verið dregin til baka.

Endurköllunin kemur í kjölfarið á því að Sádi-Arabía auk Egyptalands, Baharin og Sameinuðu arabísku furstadæmanna slitu í gær stjórnmálasambandi við Katar vegna stuðnings Katar við hryðjuverkahópa. Aðgerðirnar fela m.a. í sér að öllum landamærum Sádi-arabíu sem liggja að Katar hefur verið lokað.