Síðustu samningafundir á milli Century Aluminumog íslenskra orkufyrirtækja hafa ekki snúist um verð á orku heldur skiptingu áhættu við kostnað á jarðvarmavirkjunum. Áhætta sem Century er ekki tilbúin til að eiga stóran hluta af ef marka má orð forstjórans.Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku þá talaði Bless um fjárfestinguna í Helguvík sem sokkinn kostnað á fundi með greinanda Bank of America Merrill Lynch. Þar að auki sagði hann fyrirtækið einungis tilbúið til að halda verkefninu áfram ef arðsemin fyrir hluthafa af verkefninu yrði einstaklega góð og áhættan af því mjög lítil. Eru þeir tilbúnir til að láta þar við sitja ef þessi takmörk nást ekki.

Samningar Century við HS Orku og Orkuveituna eru enn í fullu gildi eins og gerðardómur úrskurðaði um í maí. Fyrirtækin eru skuldbundin til að afhenda ákveðið magn orku. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins furða menn sig hjá íslensku orkufyrirtækjunum á málflutningi forstjóra Century þar sem hann segir HS Orku og OR vilja hærra verð og að það verð sé óásættanlegt. Þeir samningafundir sem hafa verið haldnir hafa ekki snúist um orkuverðið þar sem þegar er kveðið er á um það í samningum sem liggja fyrir.