Regluverk atvinnulífsins var ekki einfaldað á síðasta kjörtímabili. Þetta kemur fram í úttekt forsætisráðuneytisins sjálfs á áhrifum lagabreytinga síðasta kjörtímabils sem Viðskiptaráð fjallar um .

Voru reglur Evrópusambandsins sem taka þurfti upp í gegnum EES samninginn innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf var á. Einnig framfylgdu ráðuneytin ekki því hlutverki sínu að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið.

Viðskiptaráð hvetur til þess í fréttatilkynningu að komið verði í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram og bendir á að byrði af regluverki leggst þyngst á smærri fyrirtæki sem ekki hafa fjárhagslega burði til að ráða fram úr flóknu regluverki.

Beinn kostnaður 22 milljarðar

Eru 22 milljarðar króna áætlaður sem beinn kostnaður af íþyngjandi regluverki, en auk þess nemur óbeinn kostnaður regluverks allt að 143 milljörðum króna á ári.

„Hægur framleiðnivöxtur á Íslandi undanfarin ár bendir til þess að viðfangsefnið sé enn brýnna en áður,“ segir í fréttatilkynningu Viðskiptaráðs.

„Þrír þættir standa upp úr:

  1. Þrjár íþyngjandi breytingar urðu á móti hverri einföldun
  2. Séríslensk íþyngjandi ákvæði urðu til, til viðbótar við EES-regluverk
  3. Ráðuneyti mátu ekki áhrif íþyngjandi ákvæða“