Sjö fyrirtæki eru á listanum sem starfa undir flokki sem kallast stórmarkaðir og matvöruverslanir. Þessi sjö fyrirtæki ættu að vera þekkt meðal landsmanna, en um er að ræða fyrirtæki á borð við Haga, Kaupfélag Skagfirðinga, Krónuna, Melabúðina og Kaupfélag Borgfirðinga svo eitthvað sé nefnt.

Eignir Kaupfélags Skagfirðinga eru þær hæstu í þessum flokki og nema um 37 milljörðum króna. Hagar eru í öðru sæti en eignir félagsins námu 27,6 milljörðum króna við árslok 2015. Þess ber þó að geta að þriðja sætið í flokki eignamestu fyrirtækjanna á þessu sviði fer til fyrirtækisins Hagar verslanir ehf. Eignir þess félags eru skráðar á 17,9 milljarða króna og er félagið hluti af Haga-samsteypunni.

Hæsta eiginfjárhlutfallið nemur 77,11% en það er fyrirtækið Raðhús ehf. á Sauðárkróki sem stendur svo vel að vígi. Kaupfélag Skagfirðinga er þá í öðru sæti með eiginfjárhlutfall sem nemur um 71,13%. Þar á eftir kemur Melabúðin, en eiginfjárhlutfall fyrirtækisins nemur samkvæmt listanum tæplega 67%.

Raðhús ehf. hagnaðist minnst árið 2015 enda smæsta félagið. Hagnaðurinn nam 12,2 milljónum króna, á meðan Hagar högnuðust mest og það um 3,8 milljarða króna. Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga nam þá á þessu sama tímabili 1,8 milljörðum og var hagnaður Krónunnar ehf. þá um 714 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Framúrskarandi, sem fylgdi Viðskiptablaðinu 26. janúar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Samanburður matvöruverslana
Samanburður matvöruverslana