Samkvæmt skammtímavísi Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun var metfjöldi eigna tekinn úr birtingu í september, sem gefur vísbendingu um mikil umsvif á fasteignamarkaði. Alls voru 1.117 íbúðir teknar úr birtingu á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði sem er um 15% meira en í ágúst og um 54% meira en í september í fyrra. Lágir vextir eru taldir helsta útskýringin á líflegum íbúðamarkaði. Frá þessu er greint í skýrslu HMS.

Áðurnefndur skammtímahagvísir á að gefa góða vísbendingu um sölu á fasteignum nánast í rauntíma með því að mæla hversu margar íbúðir eru teknar af sölu á hverjum tíma. Kemur fram í skýrslu HMS að „skammtímamælikvarðinn hefur sannað gildi sitt,” og að ekkert lát sé á fasteignakaupum landsmanna um þessar mundir.

Meðalsölutími lágur

Á höfuðborgarsvæðinu tók að jafnaði 58 daga að selja nýjar íbúðir sem voru með útgefinn kaupsamning í ágúst síðastliðnum og 46 daga að selja aðrar íbúðir. Annars staðar á landinu var meðalsölutími nýrra íbúða 84 dagar en 68 á meðal annarra.” Litlar breytingar hafa mælst á meðalsölutíma og kemur fram í skýrslunni að hann sé enn tiltölulega lágur í sögulegu samhengi.

Töluvert hefur dregið úr meðalsölutíma dýrari eigna á höfuðborgarsvæðinu. Í ágúst tók að jafnaði 49 daga að selja eignir sem kosta 90-120 milljónir króna en 52 daga að selja eignir á bilinu 35-90 milljónir. Í upphafi árs 2016 tók yfir 120 daga að jafnaði að selja eignir sem kosta 90-120 milljónir. Eignir á undir 35 milljónir sem seldust í ágúst voru að jafnaði 38 daga að seljast.

Vísitala leiguverðs svipuð og í upphafi árs

Verulega hefur hægst á vexti leiguverðs á landinu öllu að undanförnu. Það á sérstaklega við á höfuðborgarsvæðinu,” kemur fram í skýrslunni. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði vísitalan frá janúar til apríl en tók svo að lækka. Í ágúst var tólf mánaða breyting vísitölunnar 1,2% sem er talið lágt í sögulegu samhengi.

Enn fremur kemur fram að á árunum 2013-2018 hafi meðalleiguverð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað úr rúmlega 120 þúsund krónum í 200 þúsund krónur. Leigjendur eru að jafnaði að greiða sömu upphæð miðað við þinglýsta samninga í ágúst og þeir gerðu um mitt ár 2018, hafa ber í huga að meðalstærð íbúða milli 2018 og 2019 hefur tekið breytingum.

Um þriðjungur allra seldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu seldust á eða yfir ásettu verði í ágúst. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt það sem af er ári og hefur ekki verið hærra síðan á haustmánuðum 2017. Það var fjórðungur í janúar á þessu ári. Hlutfallið var 35% fyrir sérbýli en 32% fyrir íbúðir í fjölbýli.