Heimavellir luku í gær stækkun á verðtryggðum skuldabréfaflokkum á gjalddaga 2025 og 2048 en alls voru gefin út skuldabréf fyrir 3.060 milljónir á 2,99% veginni ávöxtunarkröfu. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar munu Heimavellir endurfjármagna núverandi skuldir með útgáfunni.

Fram kom í uppgjöri Heimavalla fyrir síðasta ár að vegnir meðalvextir verðtryggðra lána hafi verið 4,1% um síðustu áramót en ef félaginu tækist að endurfjármagna 8,5 milljarða af óhagstæðum lánum  (bæði verðtryggð og óverðtryggð) með útgáfu á verðtryggðum bréfum á 3% ávöxtunarkröfu myndu verðtryggðir meðalvextir lækka í 3,5% og óverðtryggðir í 6,3% úr 7% við síðustu áramót.

Alls voru gefin út skuldabréf í flokknum HEIMA071225 að nafnvirði 1.320 milljónir á ávöxtunarkröfunni 2,85% og er heildarstærð flokksins, sem ber 3,2% fasta verðtryggða vexti, nú 4.660 milljónir króna að nafnvirði.

Í skuldabréfaflokknum HEIMA071248 voru gefin út bréf að nafnvirði 1.740 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,1%. Heildarstærð flokksins nemur nú 6 milljörðum að nafnvirði en hann ber fasta 3,65% verðtryggða vexti.

Það voru markaðsviðskipti Arion banka sem höfðu umsjón með sölunni fyrir hönd Heimavalla.