Rekstrartekjur Icelandair lækkuðu um 81% á milli ára sem alla jafna er sá fjórðungur sem umsvif félagsins yfir mest og námu heildartekjur samstæðunnar 14,1 milljarði króna (103,6 milljónum dala). Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Icelandair.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi út samhliða uppgjörinu kemur fram að eignfærsla tekjuskatts og endurflokkun eldsneytisvarna, sem urðu virkar eftir endursamninga við mótaðila, höfðu jákvæð áhrif á hagnað félagsins sem nam 5,2 milljörðum króna (38,2 milljónum dala) samanborið við 8,4 milljarða króna (61,5 milljónir dala) hagnað á þriðja ársfjórðungi 2019. Eldsneytisvarnir ollu félaginu töluverðu tjóni í upphafi ársins, eftir að faraldurinn skall á, en á fyrsta ársfjórðungi nam tap Icelandair vegna eldsneytisvarna 6,6 milljörðum króna.

Icelandair lauk nýverið 23 milljarða króna hlutafjárútboði þar sem fjárfestar skráðu sig fyrir 37,3 milljörðum króna. PAR Capital sem var stærsti hluthafi félagsins þegar heimsfaraldurinn skall á tók ekki þátt í útboðinu og hefur síðan þá selt allan hlut sinn í Icelandair líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Eigið fé Icelandair nam 40,7 milljörðum króna (293,1 milljón dala) í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfall var 26%.

Umsvif í fraktflugi jukust um 13% á milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam tap félagsins alls 293 milljónum dollara, jafnvirði um 41 milljarðs króna.

Icelandair seldi fyrr í þessum mánuði þrjár Boeing 757 flugvélar á um 2,9 milljarða króna og setti fjórar til viðbótar í endurvinnslu. Þá kynnti félagið í síðustu viku að það hyggist fljúga til 32 áfangastaða næsta sumar.

Lausafé út ári 2022

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að áfram sé gert ráð fyrir lágmarksstarfsemi hjá félaginu næstu vikur. Félagið hefur að jafnaði flogið um eitt til þrjú áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli á dag síðustu vikur.

„Kórónuveirufaraldurinn hélt áfram að hafa áhrif á starfsemi Icelandair Group í þriðja ársfjórðungi. Við náðum að draga úr tekjutapi með því að bregðast hratt við og mæta aukinni eftirspurn eftir flugi þegar ferðatakmarkanir í Evrópu voru rýmkaðar tímabundið í sumar. Um leið héldum við áfram að sækja ný verkefni í leigu- og fraktflugi og jukust tekjur af fraktflutningum um 16% á milli ára. Aftur á móti starfræktum við einungis níu prósent flugáætlunar okkar og fjöldi farþega dróst saman um 90% á milli ára,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.

„Við gerum ráð fyrir að starfsemi félagsins verði áfram í lágmarki á næstu vikum. Við höfum hins vegar náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkt lausafjárstöðu félagsins til þess að geta komist í gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur. Við leggjum þó áherslu á að vera vel undirbúin til að bregðast hratt við um leið og aðstæður í heiminum batna og ferðatakmarkanir á Íslandi verða rýmkaðar. Með fjölbreyttan og breiðan hluthafahóp, sterkan efnahagsreikning, sveigjanlegt leiðakerfi, öfluga innviði og síðast en ekki síst frábært starfsfólk, erum við tilbúin að bregðast hratt við og grípa tækifærin þegar eftirspurn ferðamanna tekur við sér á ný,“ segir Bogi enn fremur.