Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 27,1% fylgi og því mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi, að því er könnun MMR segir frá. Fylgi flokksins nam 21,9% í lok október og hefur fylgi hans því aukist um ríflega fimm prósentustig síðan þá. Flokkurinn hefur einu sinni mælst með meira fylgi á þessu kjörtímabili, í mars á þessu ári.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 50% sem er tæplega tveimur prósentustigum minna en við síðustu mælingu. Í júní á þessu ári nam stuðningur við ríkisstjórnina 46,8% og hefur því aukist um rúmlega þrjú prósentustig síðan þá. Könnunin var framkvæmd á milli 26. nóvember til 3. Desember og var heildarfjöldi svarenda 944 einstaklingar.

Píratar og Samfylkingin mældust næst hæst með 13,8% fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar lækkaði um tæplega þrjú prósentustig milli mælinga en fylgi Pírata lækkaði lítillega.

Fylgi Viðreisnar mældist 9,5% og jókst um ríflega prósentustig milli kannana. Fylgi Framsóknarflokksins mældist 7,6% en 9,9% í síðustu könnun.

Hér má sjá niðurstöður MMR fyrir lok nóvembermánaðar:

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 27,1% og mældist 25,0% í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 13,8% og mældist 14,3% í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 13,8% og mældist 16,7% í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,5% og mældist 8,4% í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 7,6% og mældist 9,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Vinstri grænna mældist nú 7,6% og mældist 7,5% í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 7,0% og mældist 9,1% í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokks fólksins mældist nú 6,2% og mældist 3,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 5,0% og mældist 4,0% í síðustu könnun.
  • Stuðningur við aðra mældist 2,3% samanlagt.