Metár var á síðasta ári hjá framleiðslufyrirtækjum Baltasars Kormáks á síðasta ári en hann hefu r frá árinu 2018 rekið kvikmyndaver í Gufunesi. Félagið GN Studios, í eigu Baltasars, keypti húsnæði gömlu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi árið 2016 og opnaði þar kvikmyndaver tveimur árum síðar.

Stefnt er að því að auka umsvifin í Gufunesi frekar. Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg um að bæta við sig gamalli birgðaskemmu í Gufunesi við hlið núverandi kvikmyndavers. Ef af verður stendur til að verja um 1,3 milljörðum króna í að breyta húsnæðinu í tvö minni kvikmyndaver ásamt þjónustumiðstöð.

„Mín stærsta bíómynd til þessa“

Baltasar á einnig hlut í uppbyggingu nýs hverfis sem nú er að rísa í Gufunesi en Fasteignaþróunarfélagið Spilda leiðir verkefnið.

GN Studios samdi árið 2017 við Reykjavíkurborg um kaup á lóðum við hlið kvikmyndaversins í Gufunesi með byggingarétt upp á um 30 þúsund fermetra. Árið 2020 samþykkti borgarráð að heimila framsal á skuldbindingum GN Studios til Spildu.

Framkvæmdir við fyrstu íbúðirnar hófust í vor en alls stefnir Spilda að því að byggja um 700 íbúðir í Gufunesi á næstu árum.„Ég er fjárfestir í því með Spildu. Það er langtímaverkefni að byggja og skapa nýtt hverfi sem getur orðið algjörlega nýtt í Reykjavíkurmyndinni. Það er, held ég, mín stærsta bíómynd til þessa - að búa til þorp. Það eru mjög spennandi möguleikar þarna," segir hann.

„Þegar ég keypti þetta upphaflega héldu menn að ég væri endanlega búinn að missa það og kölluðu svæðið Tsjernobyl. Þetta er eins og eggið og hænan. Nú er talað um að ég hafi dottið í lukkupottinn en það leit ekki þannig út fyrst og það var enginn annar sem vildi fjárfesta í þessu. Þegar búið er að gera svæðið upp verður þetta eitt fallegasta landsvæði í Reykjavík - útsýnið þarna og fjaran - þetta er alveg geðveikt," segir Baltasar.

Nánar er rætt við Baltasar Kormák í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .