Kæra Gunnars Scheving Thorsteinssonar og ónefnds starfsmanns Nova á hendur Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðingi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið felld niður.

Telur Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í málinu, eftir rannsókn málsins litlar líkur á sakfellingu.

Ástæða kærunnar er rannsókn Öldu Hrannar í svokölluðu LÖKE máli, sem endaði með kæru á hendur Gunnari Scheving, þar sem honum var gefið að sök að hafa miðlað upplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila.

Sýknaður af ásökunum

Upphaflega var honum gefið að sök að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar LÖKE, án þess að þær upplfettingar tengdust starfi hans en sá ákæruliður var felldur niður.

Hins vegar var hann sýknaður af fyrrnefndri ásökun, en í ákæru hans og félaga hans á hendur Öldu Hrönn segir „Hún bar á mig kynferðisglæpi, víðtækar persónunjósnir og umfangsmikinn stuld á gögnum úr kerfum lögreglu.“

Garðar Steinn Ólafsson, lögfræðingur Gunnars Scheving Thorsteinssonar, segir í samtali við Vísi ætla að áfrýja niðurstöðunni til setts ríkissaksóknara, en málið snýst meðal annars um það hvort Alda Hrönn hafi haft heimild til að fara út í rannsóknina.

Í yfirlýsingu Öldu Hrannar í kjölfar úrskurðarins segir:

„Settur héraðssaksóknari hefur fellt niður mál er varðar aðkomu mína að máli lögreglumanns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og tveggja annarra aðila á meðan ég gegndi stöðu yfirlögfræðings hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Kemst settur héraðssaksóknari að því að ekkert hafi komið fram við rannsóknina sem styðji þær ásakanir sem á mig voru bornar og voru tilefni rannsóknarinnar.

Niðurstaða setts héraðssaksóknara er afdráttarlaus en þar segir meðal annars;

„Eins og mál þetta liggur fyrir er þó ekkert sem bendir til þess að kærða hafi í heimildarleysi rannsakað málið, aflað upplýsinga, dreift nektarmyndum eða borið rangar sakargiftir á kærendur. Enn fremur hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem færa rök að því að kærða hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar sem leynt áttu að fara, eða dreift þeim með ólögmætum hætti, líkt og haldið er fram í kæru.

Þvert á móti verður að líta svo á að aðkoma kærðu að málinu hafi verið í samræmi við munnleg fyrirmæli ríkissaksóknara, eins og upplýsingar um þau fyrirmæli liggja fyrir.[...]“

Jafnframt segir í niðurstöðu setts héraðssaksóknara;

„Að mati setts héraðssaksóknara hefur því ekkert komið fram við rannsóknina sem bendir til þess að kærða, Alda Hrönn, hafi gerst sek um brot á ákvæðum lögreglulaga nr. 90/1996, ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða annarra ákvæða sérrefsilaga eða almennra hegningarlaga sem vísað er til í kærum.“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir:

„Það er afar þungbært að vera borin sökum algerlega að tilefnislausu, bæði í kæru og í fjölmiðlum, og þurfa að sæta því að vera leyst frá störfum fyrir það eitt að vinna starf mitt lögum samkvæmt og af fyllstu fagmennsku. Það er gott að rannsókninni sé loksins lokið. Ég hef ávallt haldið fram sakleysi mínu af þeim fráleitu ásökunum sem á mig voru bornar og staðfestir niðurstaða setts héraðssaksóknara með ótvíræðum hætti að engin fótur var fyrir þeim.ˮ

Alda Hrönn Jóhannsdóttir Aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu“