*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 8. október 2020 11:26

Kauphöllin græn í fyrstu viðskiptum

Hlutabréf nær allra félaganna í kauphöllinni hafa hækkað í fyrstu viðskiptum. Hlutabréf Icelandair nálgast útboðsgengi.

Ritstjórn

Það sem af er degi hafa hlutabréf sautján af þeim nítján félögum sem skráð eru í kauphöll Nasdaq á Íslandi hækkað í verði. Hlutabréf fimmtán félaga hafa hækkað um meira en eitt prósentustig. Einungis hlutabréf Brim og Origo hafa staðið í stað. 

Heildarvelta það sem af er degi nemur 1,1 milljarði króna í 122 viðskiptum þar sem úrvalsvísitalan hefur hækkað um ríflega 2,5% og stendur í 2.148 stigum þegar þetta er skrifað.

Bréf Icelandair nálgast útboðsgengi

Hlutabréf Skeljungs hafa hækkað mest í viðskiptum dagsins eða um 5,22% í 63 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í 8,06 krónum þegar þetta er skrifað.

Næst mest hækkun hefur verið á hlutabréfum Icelandair eða um 4,44% í 66 milljóna króna veltu. Standa bréf félagsins í 0,94 krónum hvert og nálgast því útboðsgengi bréfanna sem var ein króna.

Sjá einnig: Icelandair selur þrjár Boeing 757

Í gærkvöldi tilkynnti Icelandair að félagið hefur selt þrjár Boeing 757 flugvélar fyrir nær þrjá milljarða króna. Yngsta flugvélin var tuttugu ára gömul.

Mest viðskipti hafa verið með bréf Marel, fyrir 321 milljón króna, og hafa bréf félagsins hækkað um 2,48%. Þau standa nú í 702 krónum en eftir lokun markaða á þriðjudag stóðu bréfin í 660 krónum. Hæst hafa þau farið í 746 krónur.