Að jafnaði hækkaði leiguverð um 11-15% á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 til dagsins í dag. Mestu hækkunina er að finna á Álftanesi eða um 59% en mjög fáir samningar liggja þar að baki og sveiflur því miklar. Næst mest hækkun hefur átt sér stað í 103 Reykjavík eða ríflega þriðjungshækkun. Töluvert af nýjum íbúðum í því hverfi bera hærri leigu en þær íbúðir sem áður voru. Frá þessu er greint í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun.

Hæsta fermetraverðið er í 101 Reykjavík eða 3.100 krónur á hvern fermetra en ódýrasta fermetraverðið er 2.500 krónur fyrir hvern fermetra í útjaðri höfuðborgarsvæðisins.

Leiga 40% af ráðstöfunartekjum fólks

Á árunum 2017-2019 var tólf mánaða hækkun leiguverðs nánast samfellt hærri en tólf mánaða hækkun launa. Undanfarið ár hefur orðið viðsnúningur þar á. Frá haustinu 2019 hafa laun vaxið umfram leiguverð og er tekið fram í skýrslu HMS að undirritun lífskjarasamninganna spili þar stórt hlutverk. Kaupmáttur launa er í hæstu hæðum.

Samkvæmt leigukönnun HMS hefur hlutfall ráðstöfunartekna sem fara í leigu verið um 40% undanfarin ár. Miðað við skilgreiningu Eurostat er húsnæðiskostnaður yfir 40% af ráðstöfunartekjum skilgreindur sem íþyngjandi byrði.

Alls fengu 16.300 umsækjendur greiddar húsnæðisbætur í september, um 200 færri en í ágúst og 300 fleiri en á sama tíma í fyrra. Alls voru greiddar út 524 milljónir króna í húsnæðisbætur þar sem meðalfjárhæð nam 32.200 krónum.

Meðalleigufjárhæð á bak við húsnæðisbætur í september nam tæplega 139 þúsund krónum sem er 4.000 meira en á sama tíma fyrir ári. Mánaðarlegar meðaltekjur umsækjenda hafa lækkað um 5.800 krónur á sama tímabili.