Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing gerir ráð fyrir að spurn eftir farþegaþotum verði ellefu prósentustigum minni á næsta áratugi en félagið spáði á síðasta ári. Félagið gerir ráð fyrir að sala á vörum tengdum geimferðum og varnarmálum verði stöðug á næstunni og komi síðan til með að rétta úr kútnum.

Í árlegri skýrslu Boeing er því spáð að spurn eftir smærri flugvélum, líkt og 737 MAX-vélunum og öðrum sambærilegum flugvélum, verði meiri en áður. Eins og kunnugt er voru 737 MAX-vélarnar kyrrsettar í mars á síðasta ári eftir tvö banaslys. Mikil eftirspurn af téðum vélum er sögð stafa af væntanlegri breytingu á ferðavenjum fólks. Þegar ferðlög hefjast á ný er gert ráð fyrir að fólk muni ferðast styttri vegalengdir, alla jafna, en áður var. Umfjöllun á vef New York Times.

Fram kemur að Boeing gerir ráð fyrir að alls verði keypt um 18.350 flugvélar á næsta áratugnum fyrir um 2,9 billjónir Bandaríkjadala. Gerir félagið ráð fyrir að markaðurinn fyrir vörur tengdar geimferðum verði virði um 8,5 billjónir Bandaríkjadala en fyrri spár gerðu ráð fyrir 8,7 billjóna markaði.

Flugfélagið American Airlines hefur nýlega greint frá því að flugáætlun félagsins í nóvember verður um helmingur af þeirri flugáætlun sem félagið hélt úti í sama mánuði árið áður. Southwest Airlines minnkaði flugáætlun sína í nóvember um ríflega þriðjung í síðustu viku og er gert ráð fyrir að flugfélögin Delta Air Lines og United Airlines geri slíkt hið sama á næstunni.