Auðhumla, samvinnufélag kúabænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, hagnaðist um 932 milljónir króna á síðasta ári. Það er besta uppgjör samstæðunnar frá sameiningu og endurskipulagningu mjólkuriðnaðarins árið 2007.

Hagnaðurinn nam 357 milljónum árið 2020 og nærri þrefaldaðist á milli ára. Rekstrartekjur námu 34,6 milljörðum og jukust um 1,9 milljarða á milli ára. Rekstrarhagnaður jókst úr 747 milljónum í 1.045 milljónir á milli ára. Þá skilaði lækkun lífeyrisskuldbindinga bættri afkomu upp á 247 milljónir króna á milli ára.

Eignir samstæðunnar námu 24,2 milljörðum króna á árinu. Eigið fé nam 13,8 milljörðum króna í árslok og var eiginfjárhlutfallið 57,1%.