*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 12. júní 2021 07:14

Nái ekki metárinu fyrr en 2030

Gangi spá IATA eftir verður farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli ekki sá sami og á metárinu 2018 fyrr en árið 2030.

Ritstjórn
vb.is

Þegar við horfum fram á við höfum við fulla trú á því að flugið og ferðaþjónustan muni taka mjög hratt við sér,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Við teljum að við getum aftur náð upp í farþegafjöldann sem var fyrir COVID á tveimur til fjórum árum – vonandi nær tveimur árum,“ segir Guðmundur Daði.

Isavia áætlar að um tvær milljónir farþega fari um flugvöllinn í ár en farþegarnir voru 7,3 milljónir árið 2019. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að umferðin um flugvöllinn nái sömu hæðum og á hápunkti ferðamannagóðærisins árið 2018 í bráð en þá fóru 9,8 milljónir farþega um flugvöllinn.

Guðmundur Daði bendir á að fyrir COVID hafi Isavia ekki búist við að toppi ársins 2018 yrði náð á ný fyrr en árið 2028. IATA, Alþjóðasamtök flugfélaga, spáðu því í maí að varanleg áhrif heimsfaraldursins yrðu að fjölgun farþega yrði tveimur árum á eftir því sem búist var við fyrir heimsfaraldurinn. Sé miðað við þá forsendu næst hápunktur ársins 2018 ekki aftur fyrr en árið 2030. „Við vonum að sjálfsögðu að það gerist miklu fyrr,“ segir Guðmundur Daði.

Þá hafi árið 2018 verið mjög óvenjulegt. „Við lítum á árið 2018 sem útlaga. Þar var kannski orðin ósjálfbær vöxtur með breiðþotunum.“ Hann bendir til að mynda á að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, hafi sjálfur viðurkennt að það hafi verið mistök að taka í notkun breiðþotur. „Við sjáum ekki fyrir okkur að Icelandair eða Play komi inn í bráð með breiðþotur,“ bendir Guðmundur Daði á. Þá hafi Wow air þegar verið búið að skera niður sitt leiðarkerfi svo að farþegum á Keflavíkurflugvelli hefði fækkað þónokkuð árið 2019 jafnvel þótt Wow hefði lifað af, en flugfélagið flutti 3,5 milljónir farþega árið 2018.

Vöxturinn árin 2015 til 2018 var mun meiri en Isavia bjóst við í þróunaráætlun sinni fyrir árin 2015 til 2040 eins og sjá má á grafinu hér að ofan sem sýnir ólíkar sviðsmyndir um farþegafjölda fram til ársins 2030. Árið 2016 var birt ný spá í skýrslunni „Stóriðja í stöðugum vexti“ hjá Isavia þar sem gengið var út frá þeirri forsendu að vöxtur flugfélaganna héldi áfram og því var spáð að farþegafjöldinn næði um 15 milljónum farþega árið 2030. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér