Mynto er ný vefverslunarmiðstöð sem sett var á laggirnar í dag. Mynto er smáforrit sem hægt er að sækja í App Store og Google Play en vefsíðan mynto.is fer í loftið á næstu vikum. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.

Um er að ræða stærstu vefverslun á Íslandi. 40 verslanir munu til að byrja með bjóða fram vöruúrval sitt og má þar nefna Epal, Lindex og Nespresso. Yfir 100 þúsund vörunúmer verða í boði og segir Heba Fjalardóttir, markaðsstjóri Mynto, að verslanirnar muni njóta góðs af því að vera tengdar saman. Slíkt dragi að viðskiptavini, rétt eins og með verslunarmiðstöðvar.

Verslanir þurfa að reka eigin vefverslun til að tengjast Mynto. Eins og sakir standa býður Mynto eingöngu tengingar við vefverslunarkerfin Shopify og WooCommerce. Síðan á sér ekki erlendar fyrirmyndir en þá væri helst að nefna Amazon eða Asos. Neytendur verða hins vegar alltaf var við hvaða fyrirtæki er verslað en hægt verður að fara á hverja vefverslun fyrir sig í gegnum vef Mynto.

Verkefni til langs tíma

Heba segir frá því að svartsýnustu spár félagsins geri ráð fyrir að rekstur þess sé farinn að standa undir sér eftir tæplega tvö ár. Að félagið ætli að safna auknu hlutafé seinna í sumar en erfitt sé að áætla hvernig salan fari af stað.

Mynto tekur þóknun fyrir hverja sölu en rukkar ekki mánaðargjald en fyrirtækjum býðst að prófa Mynto frítt í einn mánuð. Ætla má því að verkefnið sé til langs tíma en Heba telur að tímasetning Mynto sé mjög góð enda netverslun að færast í aukana í kjölfarið á heimsfaraldrinum.

Reynslumikið fólk í stjórn

Eftirtaldir aðilar sitja í stjórn Mynto sem allir búa yfir töluvert mikilli reynslu úr atvinnulífinu. Finnur Oddsson, nýráðinn forstjóri Haga; Svafa Grönfeldt, sem starfar við nýsköpunarsetur MIT-háskólans í Boston; Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri gæðamála hjá Alvogen og Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdarstjóri bílaleigunnar Geysis.