Árið 2008 rataði ísraelski efnaverkfræðingurinn Isaac Berzin, þá fertugur, á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu leiðtoga, hugsuði og vísindamenn samtímans. Berzin hafði þá landað 92 milljóna dollara samningi um að rækta smáþörunga.

Nokkrum árum síðar gekk Kristinn Hafliðason, þá starfsmaður Íslandsstofu, með grasið í skónum á eftir honum og reyndi að fá hann og hugvit hans til landsins. Það hófst að lokum og varð það úr að Berzin hóf að hanna hátækniverksmiðju til að rækta smáþörunga hér á landi. Verksmiðjan bar áður nafnið Algaennovation en hefur nýverið tekið upp nafnið VAXA Technologies.

Berzin er meðal 30 af umsvifamestu erlendu auðmanna sem fjárfesta hafa hér á landi sem fjallað er um í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Fyrrnefndur Kristinn er nú framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Stofnendurnir telja sig vera með mjög spennandi afurð í höndunum sem gæti orðið einn af lykilþáttunum til að tryggja fæðuöryggi mannkyns þegar fram líða stundir. Verksmiðjan var formlega gangsett árið 2019 og hefur framleiðsla farið vel af stað.

Áætlað er að tekjur ársins verði um 42 milljónir króna en stefnt er að því að þær verði orðnar 14 milljarðar á ári innan fimm ára. Fyrirtækið stefnir á skráningu í kauphöll í New York innan tveggja ára.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .