Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í ávarpi sínu á nýársdag, að áform stjórnvalda um að koma á fót þjóðarsjóði lofi góðu. Í ávarpinu sagði hann meðal annars:

„Góðir landsmenn: Nú mun uppi mikið hagvaxtarskeið hér á landi, góðæri sem sumir líkja jafnvel við hið ljúfsára ár 2007. Laust fyrir jól mátti lesa í einum fjölmiðli að þessi gósentíð sæist meðal annars í eldhúsum landsmanna „sem virðast verða flottari og dýrari með hverjum deginum“. Annars staðar var frá því greint að endurvinnslustöðvar hefðu vart undan að taka við varningi fólks, oftar en ekki í góðu lagi en utan tískustrauma og þyrfti því að farga. Er þetta alveg sjálfsagt? Á sama tíma berjast margir við að ná endum saman, búa jafnvel við sára fátækt.

Víst er að efnisleg verðmæti tryggja ekki endilega hamingju og lífsgæði. Og víst er það áhyggjuefni hve illa hefur gengið á Íslandi að safna í sjóði þegar vel árar. Er þetta eitthvað í þjóðarsálinni? Í rapplaginu „Græða peninginn“ syngur tíu ári snáði, Úlfur Emilio Machado Tinnuson, um þá list sem geri honum kleift að kaupa ís og bland í poka. „Sóaði öllum peningunum en ég bara græði á morgun,“ segir svo áfram í laginu. Bragð er að þá barnið finnur!

Hér má horfa öfundaraugum til Norðmanna sem báru gæfu til að setja olíuauð sinn í þjóðarsjóð. Við búum líka yfir sameiginlegum auðlindum. Þau lofa því góðu, áform stjórnvalda um þjóðarsjóð Íslands sem tryggi að arður auðlindanna renni til nýsköpunar og nauðsynlegra endurbóta í heilbrigðiskerfinu, auk annarra þjóðþrifamála.“