*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 6. mars 2017 14:21

Spá 2,5 milljónum ferðamanna árið 2018

Greiningardeild Arion banka segir fjölda ferðamanna síðustu 9 ára vera þann sama og í 59 ár þar á undan. Næstu þrjú ár muni svo jafngilda því ef spár rætast.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Konráð S. Guðjónsson frá greiningardeild Arion banka, hélt erindi á málþingi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var fyrir helgi sem bar yfirskriftina „Er Ísland uppselt?

Segir í fréttatilkynningu frá bankanum að spurningin sé réttmæt vegna hraðrar gengisstyrkingar, hótelnýtingar, ónægrar innviðafjárfestingar og stöðnunar á húsnæðismarkaði, en á hinn bóginn séu aðstæður um margt mjög góðar um þessar mundir hér á landi.

Meðal þess sem fram kom í erindinu er að síðustu 9 ár slá út 59 ár þar á undan í samanlögðum fjölda erlendra ferðamanna. Komu á árunum 1949 til 2007 í heildina rúmlega 6,7 milljónir ferðamanna til landsins, en á árunum 2008 til 2016 voru þeir samanlagt rúmlega 7,6 milljónir.

Heildarfjöldi ferðamanna í janúar síðastliðnum var sami og komu samtals í júní og júlímánuði árið 2007.

Spá 2,5 milljónum árið 2018

Í fyrra stóð ferðaþjónustan beint undir um 10% af vergri landsframleiðslu í fyrra en greiningardeildin spáir rúmlega 2,2 milljónum ferðamanna hingað til lands í ár, og að fjöldinn fari í 2,5 milljónir árið 2018.

Ef sú spá myndi rætast myndi samanlagður fjöldi ferðamanna á þessu ári og næstu tveimur jafngilda fjölda ferðamanna síðustu níu ára.

Þó tekur erindi Konráðs fram að óvissan um komu ferðamanna séu talsverð og þar komi inn í þróun flugframboðs og gengis krónunnar.

En einnig geti þar haft áhrif mögulegar náttúruhamfarir auk þess sem við nálgumst hratt ýmis þolmörk náttúru, samfélags, vinnumarkaðar og innviða.

Minni fjölgun en spáð síðustu 4 mánuði

Jafnframt segir þar að Ísland sé líklega orðið dýrasta land í heimi, og að kaupmáttur Íslendinga erlendis hafi aldrei verið jafnmikill vegna styrkingar krónunnar. Þannig sé neysluverð á Íslandi nærri 15% hærra en í Noregi og jafnvel 3% hærra en í Sviss.

Síðustu fjóra mánuði hefur þó ferðamönnum fjölgað minna en ISAVIA spáði fyrir um, sem og að nýjustu tölur um kortaveltu benda til þess að töluverðs samdráttar geti í tekjum af hverjum ferðamanni.

Það virðist vera bein afleiðing sterkara gengis krónunnar, svo möguleikanum er velt upp hvort við séum að sjá fyrstu merkin um að mesti vöxturinn sé liðinn.

Hótel á landsbyggðinni að fyllast

Nú þegar eru hótel í Reykjavík sögð troðfull allt árið með mjög góðri nýtingu en nýtingin utan höfuðborgarsvæðisins virðist jafnframt vera að batna hratt og styttist í að hótel verði full allt árið þar líka miðað við spár.

Mest hefur aukningin verið á austurlandi, þar sem hótelnýting hefur nærri þrefaldast milli ára. Ef fjölgun ferðamanna samkvæmt spám gengur eftir vantar gistirými yfir háannatímann sem er ígildi meira en allra hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu.

Uppsöfnuð fjárfestingarþörf 20 milljarðar

Á næstu árum er hins vegar spáð um 2.700 nýjum herbergjum, sem er litlu minna en áætluð fjölgun ferðamanna samkvæmt spánni. Hins vegar vantar aukna fjárfestingu í vegasamgöngum landsins sem ekki hefur haldið í við fjölgun bifreiða.

Var til að mynda fjárfesting í vegum og brúm um helmingi minni árið 2015 en hún var árið 1995, en samkvæmt fjárlögum 2016 var um 10% aukning fjárframlaga til vegaframkvæmda að ræða og voru 24.295 bílar nýskráðir.

Umferð um hringveginn og víðar, hefur aukist um 13,5% á milli áranna 2015 til 2016 en aukningin bara í janúar og febrúar á þessu ári hefur þegar numið 14,3%.

Áætlar deildin að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í vegakerfinu hafi verið rúmlega 20 milljarðar króna frá árinu 2011 til ársloka 2015, gróflega áætlað.