Með gildistöku nýs skipurits Seðlabanka Íslands í dag voru átta störf í bankanum lögð niður og aðrir starfsmenn færðust til þegar nokkur svið bankans voru sameinuð eða lögð niður.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tók sameining Fjármálaeftirlitsins undir Seðlabankann gildi um áramótin en í dag tók nýtt skipurit bankans gildi á grundvelli nýrra laga um bankann að því er bankinn tilkynnir um. Eftir sameininguna voru þá starfsmenn nýs banka samanlagt 290, en ættu að fara nú niður í 282.

Samkvæmt skipuritinu verða kjarnasvið bankans sjö, þ.e. hagfræði og peningastefna, markaðsviðskipti, fjármálastöðugleiki, bankar, lífeyrir og vátryggingar, markaðir og viðskiptahættir, og lagalegt eftirlit og vettvangsathuganir.

Stoðsvið bankans verða fjögur, þ.e. rekstur, upplýsingatækni og gagnasöfnun, fjárhagur, og mannauður. Jafnframt er í skipuritinu miðlæg skrifstofa bankastjóra.