Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, segist ætla að rifta TPP (Trans-Pacific Partnership) fríverslunarsamningnum sem lengi hefur verið í burðarliðum. TPP er fríverslunarsamningur sem að tólf lönd höfðu skrifað undir og hefði áhrif á 40% af hagkerfi heimsins. Þetta tilkynnti Trump í myndskeiði á YouTube . Samningurinn hefur verið tíu ár í smíðum.

Í myndskeiðinu útlistaði Trump hvað hann kæmi til með að gera fyrstu dagana í embætti. Trump lofaði því jafnframt að draga úr hömlum sem hefðu neikvæð áhrif á störf í kolanámuiðnaði Bandaríkjanna. „Megininntak fyrstu daga minna í embætti verður það að setja Bandaríkin í fyrsta sæti,“ segir Trump meðal annars í myndskeiðinu.

Hins vegar minntist hann ekki á áætlanir sínar um að það að fella Obamacare úr gildi eða um byggingu á veggnum við landamæri Mexíkó, sem hefur verið eitt af megináherslum Trump í kosningarbaráttunni.

TPP samningurinn var samþykktur af ríkjunum tólf árið 2015, en hefur ekki verið innleiddur. Hann nær til landa á borð við Bandaríkin, Japan, Malasíu, Ástralíu, Nýja-Sjáland, Kanada og Mexíkó. Takmarkið með samningnum var að auka viðskiptatengsl landanna tólf og auka hagvöxt með því að lækka tolla.