*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 17. desember 2020 17:01

VÍS spáir þrefalt hærri hagnaði

Áætlaður hagnaður VÍS fyrir þetta ár er um 1.150 milljónir króna og hefur þrefaldast frá 22. október síðastliðnum.

Alexander Giess
Helgi Bjarnason forstjóri VÍS.
Eyþór Árnason

VÍS áætlar að hagnaður ársins 2020 fyrir skatta verði um 1.150 milljónir króna en samkvæmt afkomuspá félagsins, sem var birt 22. október síðastliðinn, var gert ráð fyrir 390 milljóna króna hagnaði fyrir skatta. Áætlaður hagnaður VÍS hefur því þrefaldast á tæplega tveimur mánuðum.

Frá því er greint í tilkynningu að ástæðan sé hærri ávöxtun fjáreigna á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Hins vegar þurfi að hafa í huga að sveiflur geti verið á fjármálamörkuðum sem geta haft áhrif á vænta afkomu, „þrátt fyrir að stutt sé eftir af árinu.“ Félagið tilkynnir ef frávik frá væntum hagnaði ársins er meira en 300 milljónir króna. 

Ávöxtun fjárfestingaeigna í nóvember var 2,4% en ávöxtun til loka nóvember frá áramótum var 10,5%.  

Samsett hlutfall VÍS í nóvember var 99,7% og það sem af er ári 106,8%. Samsett hlutfall síðustu 12 mánaða er 106,1%. Sagt er frá því að undirliggjandi tryggingarekstur í nóvember hafi verið góður litist þó af uppgjöri tiltekinna stórra tjóna frá fyrri árum. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 1,3 milljarða króna í tjónabætur en hefur greitt 15,6 milljarða það sem af er ári.

Stikkorð: VÍS afkomuspá