Hagnaður VÍS nam 916 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 1.256 milljónir á öðrum ársfjórðungi fyrir ári. Félagið tapaði 1.047 milljónum á fyrri helmingi árs en hagnaðist um 2.192 milljónir á sama tíma fyrir ári. Félagið gerir ráð fyrir að hagnast um 164 milljónir á árinu en það birti rétt í þessu árshlutauppgjör.

Fjárfestingatekjur félagsins jukust um 12,4% á öðrum ársfjórðungi milli ára og námu 5.641 milljón. Arðsemi eiginfjár var 6,7% á fjórðungnum en 6,5% á sama tímabili 2019. Samsett hlutfall fjórðungsins var 103,5% samanborið við 93,8% á sama tímabili fyrra árs.

Fjárfestingatekjur námu 1.450 milljónum á fyrra hluta árs og nær helminguðust milli ára. Á sama tíma nam eigin tjón félagsins 9,9 milljörðum króna og hækkaði um ríflega tvo milljarða milli ára. Þar af eru 9,7 milljarðar vegna skaðatryggingareksturs.

Heildareignir félagsins námu 54 milljörðum í lok annars ársfjórðungs. Þar af eru 55,4 milljarðar króna vegna fjáreigna, ríflega tíu milljarðar hlutabréf og rúmlega 18 milljarðar skuldabréf. Viðskiptakröfur félagsins nema 9,2 milljörðum og hækkuðu um tæplega tvo milljarða frá upphafi árs.

Skuldir nema 40 milljörðum króna og eigið fé 14,1 milljarði. Eiginfjárhlutfall félagsins er 26,1%. Ekki verður greiddur út arður vegna ársins 2019.

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn á morgun.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Mjög góður árangur var í fjárfestingum í fjórðungnum. Árangurinn er sá besti frá skráningu félagsins, í fjárfestingatekjum og nafnávöxtun. Góð ávöxtun var í öllum eignaflokkum félagsins, sér í lagi skráðum hlutabréfum og erlendum skuldabréfasjóðum, að undanskildum óskráðum hlutabréfum sem lækkuðu í fjórðungnum.

Í fjórðungnum sáum við jákvæða þróun í tíðni tjóna sem rekja má til áhrifa COVID-19 á samfélagið. Hins vegar höfðu nokkur stærri tjón mjög neikvæð áhrif á fjórðunginn sem og tap af erlendri endurtryggingastarfsemi. Neikvæð áhrif erlendu endurtryggingastarfseminnar á samsett hlutfall í fjórðungnum er 5,1%, en eins og áður hefur komið fram höfum við tekið ákvörðun um að hætta í þeirri starfsemi. Samsett hlutfall fjórðungsins er 103,5% og hagnaður eftir skatta nemur 916 milljónum króna,“ segir Helgi Bjarnason.