Ef aðeins er litið til brunabótamats fasteignanna sem brunnu í Skeifunni í gærkvöldi virðist tryggingafélagið VÍS fara verst út úr brunanum. Brunabótamat fasteignanna við Skeifuna 11 er rúmlega 1,8 milljarður króna samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá. Þar af er brunabótamat þeirra fasteigna sem VÍS tryggir um 750 milljónir og er það 41% af heildarbrunabótamatinu. Helstu eigendur fasteignanna sem VÍS tryggir í Skeifunni eru fasteignafélögin Eik, Húnvetningafélagið í Reykjavík og LX fasteignir ehf.

Þetta þýðir þó ekki að heildartjón VÍS muni nema svo hárri fjárhæð. Endurtryggingarsamningar takmarka tjón tryggingafyrirtækja þegar stórtjón verður. Eins er ekki hægt að fullyrða að svo stöddu að eignirnar séu allar gereyðilagðar. VÍS hefur þegar sagt að tjón fyrirtækisins verði að hámarki 250 milljónir króna. Þá kemur fram í skráningarlýsingu Sjóvár að tap félagsins vegna stjórtjóna geti að mestu orðið 200 milljónir króna.

TM á 36% af heildarmatinu eða 652,4 milljónir. Þá er brunabótamat fasteigna sem Sjóvá tryggir um 415,9 milljónir króna, sem nemur um 23% af heildarbrunabótamati húsnæðisins sem brann.

Talið er að eldurinn hafi komið upp í efnalauginni Fönn og fór fyrirtækið gífurlega illa út úr brunanum. Því er áhugavert að skoða hvernig tryggingamálum er háttað þar. Ef tekið er mið af ársreikningi félagsins fyrir árið 2012 er vátryggingamat eigna félagsins samtals1,2 milljarðar. Þar af er vátryggingamat fasteigna félagsins rúmar 604 milljónir. TM tryggir fasteignir félagsins og má reikna með að tryggingafélagið tryggi einnig aðra þætti starfseminnar.

Aths.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að stærstur hluti eignanna við Skeifuna 11 væri tryggður af Sjóvá. Það reyndist ekki rétt, því eignir Eikar eru nú tryggðar af VÍS. Hefur fréttinni verið breytt í samræmi við það.