*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 19. nóvember 2020 14:27

Verðbólgudraugurinn kveðinn niður

Seðlabankastjóri telur að verðhækkanir séu að mestu leyti afstaðnar og að gengi krónunnar muni fara styrkjast á ný.

Alexander Giess
Ásgeir Jónsson á Peningamálafundi Viðskiptaráðs fyrr í dag.
vb.is

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að íslenska krónan muni fara að styrkjast á ný á næstu mánuðum. Frá þessu greindi hann á Peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands fyrr í dag. Ásgeir brýndi fyrir hlustendum að „Seðlabankinn er að fara halda verðlagi og gengi krónunnar stöðugu.“ Ásgeir sagði að mesti þunginn í verðhækkun sé farinn í gegn og að það sé stöðugleikinn sem skipti mestu máli fyrir þá sem minnst hafa.

Ásgeir segir að Seðlabankinn hafi spornað gegn veikingu krónunnar með gjaldeyrisinngripum en líka með því að „láta ekki lausafé inn í kerfið í stað þess lausafjár sem við tókum.“ Ásgeir vísar þar til þess að Seðlabankinn er búinn að kaupa krónur fyrir um 100 milljarða króna síðan faraldurinn skall á og því minnkað lausafé í umferð.

„Slíkt var gert til þess að tryggja að gjaldeyrisinngrip næðu árangri. Hækkun langtímavaxta var ekki að öllu leyti óvelkomin ef það þurfti til þess að styrkja gengið. […] Það er algjör forsenda að við getum haft stöðugleika á gjaldeyrismarkaði ef við ætlum að beita okkur í peningamálum, annars erum við að missa allt frá okkur, sagði Ásgeir.

Ásgeir var látinn taka lýsi sem ungur drengur

Ásgeir sagði að gengi krónunnar væri komið á sama stað og áður en ferðaþjónustan hófst, „áður en fjörið byrjaði.“ Með því væri verið að „prísa íslensku krónuna eins og ferðaþjónustan sé farin og komi aldrei aftur“.

Ásgeir sagði að það hefði verið nauðsynlegt að gengi krónunnar myndi lækka. Sú þróun hjálpi hagkerfinu að vaxa á ný og styrki útflutning Íslands. Lægra gengi myndi meðal annars hjálpa ferðaþjónustunni að komast aftur á lappirnar en fyrir heimsfaraldurinn var Reykjavík ein af dýrustu borgum Evrópu.

„Geta fyrirtækja á Íslandi til þess að borga laun veltur á þeim verðmætum sem við getum flutt út og svo framvegis. Þannig við urðum að sjá lægra gengi,“ segir Ásgeir en bendir á að vandamálið sé að „tempra“ slíka lækkun. 

„Þetta er bara eins og þegar ég var lítill strákur og mamma lét mig taka lýsi, hún lét mig taka eina skeið sem er mjög gott. […] Það hefði verið heldur verra ef hún hefði neytt mig til þess að drekka heila flösku. Hæfileg gengislækkun er hæfileg en það þarf náttúrulega að tempra það.“