Í dag verður fjármálaáætlun til næstu fimm ára lögð fram á Alþingi, en hún gerir ráð fyrir lækkun efra þreps virðisaukaskattsins, tvöföldun kolefnisgjalda og breytingum á vörugjöldum á bílaleigubíla, tilkomu samsköttunarákvæðis og lækkun bankaskatts, á sama tíma og hún gerir ráð fyrir áframhaldi á lengsta hagvaxtartímabili Íslandssögunnar.

Samsvara lækkun efra virðisaukaskattþrepsins úr 24,0% í 22,5% er gert ráð fyrir að flestar tegundir ferðaþjónustu, fyrir utan veitingaþjónustu, fari úr lægra þrepinu upp í það hærra. Jafnframt verður útgjaldaaukning til heilbrigðismála 22% á tímabilinu og 13% til velferðarmála.

Nýr Landspítali byggður

Áætlunin byggir á fjármálastefnu til fimm ára sem lögð var fram í janúar, en fjármálaáætlunin er ítarlegri útfærsla á markmiðum stefnunnar, en hún tekur til fjármála opinberra aðila í heild, það er ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera.

Í fjármálaáætluninni er jafnframt gert ráð fyrir því að nýr Landspítali verði byggður á tímabilinu, nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga taki gildi svo þátttökukostnaður sjúklinga lækki og biðlistar verði styttir.

Fæðingarorlofsgreiðslur hækkaðar

Jafnframt verða greiðslur foreldra í fæðingarorlofi hækkaðar, frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verði hækkað í skrefum og bótakerfi öryrkja verði endurskoðuð. Sömuleiðis verði aukin útgjöld og aðstoð við atvinnuleit sömuleiðis.

Jafnframt gerir áætlunin ráð fyrir því að markviss skref verði tekin til að leysa húsnæðisvandann og notendastrýrð persónuleg aðstoð lögfest, ásamt því að unnið verði gegn fátækt barna. Í áætluninni eru sett fram markmið og stefnur í 34 málefnasviðum og 101 málaflokki.

Ætla líka að borga niður lán

Samhliða öllum þessum markmiðum um aukin útgjöld og skattkerfisbreytingar, stefnir ríkisstjórnin einni að því að skila afgangi í rekstri, svo skuldir lækki hratt á tímabilinu.

Jafnframt er gert ráð fyrir að óreglulegar tekjur verði nýttar til greiða niður lán. Áfram gerir áætluninin ráð fyrir myndarlegri hækkun landsframleiðslu sem einnig hafi áhrif á að hlutfall lána af henni lækki.